Innlent

Meðferðarstofnunar þörf

Borgarafundur um ofbeldi og fíkniefnavandann í íslensku samfélagi var haldinn í Ketilhúsinu á Akureyri í gær. Um 70 manns sátu fundinn og var almenn samstaða um að halda áfram því starfi sem hófst á Akureyri með þögulli mótmælastöðu gegn ofbeldi síðastliðinn föstudag þar sem um eitt þúsund Akureyringar gáfu ofbeldinu rauða spjaldið. Stofnaður hefur verið sérstakur félagsskapur á Akureyri sem nefnist Hingað en ekki lengra en hópurinn er skipaður ungu fólki og foreldrum grunnskólanemenda á Akureyri. Markmið hópsins er að spyrna við fótum gegn ofbeldi og fíkniefnanotkun og er öllum velkomið að leggja hópnum lið. Í máli fundarmanna Í Ketilhúsinu í gær kom fram sterkur vilji til að berjast gegn ofbeldi og vímuefnanotkun og töldu margir fundarmenn þörf á að koma á fót meðferðarstofnun á Akureyri fyrir ungt fólk sem ætti við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Klukkan 17 á föstudaginn verður efnt til þögullar mótmælastöðu á Ingólfstorgi í Reykjavík þar sem ofbeldinu verður sýnt rauða spjaldið eins og gert var á Akureyri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×