Erlent

Vaktaskipti í Westminster

Það er af sem áður var, er vegfarendur um fjölförnustu torg Lundúna gátu vart þverfótað fyrir kosningaáróðri sem sjálfboðaliðar flokkanna öttu að þeim er kosningar stóðu fyrir dyrum. Á endasprettinum fyrir þingkosningarnar sem fara fram í Bretlandi á morgun er fátt í bresku höfuðborginni sem minnir á að vaktaskipti í einu elsta og virtasta þingi heims séu að skella á. Það er helst að fulltrúar sprellframboða vindi sér að vegfarendum með boðskap á borð við: "Ís fyrir alla". Meira að segja höfuðstöðvar flokkanna í nágrenni þinghússins skera sig ekki að neinu leyti frá hverjum öðrum skrifstofubyggingum nema að því leyti að öryggisvarsla við inngangana er áberandi mikil. Það kom blaðamanni á óvart að prentaðar kosningastefnuskrár stóru flokkanna þriggja var aðeins hægt að fá í bókabúð gegn greiðslu. Og það á verði sem er vel yfir framleiðslukostnaði. Það er augljóst að það er liðin tíð að flokkarnir reyni að vinna kjósendur á sitt band með dreifingu prentaðs áróðurs. Að minnsta kosti í Lundúnum, þar sem svo til öll kjördæmi eru talin "örugg" – kosningabaráttan er meira áberandi í þeim um það bil 100 kjördæmum (af alls 646) þar sem kannanir benda til að mjótt sé á mununum. Í þessum kjördæmum beita flokkarnir markhópamiðuðum áróðursaðferðum svo sem persónulegum póstsendingum og blöðrugjöfum til skólabarna með orðsendingum til foreldranna. Að ógleymdum hefðbundnum baráttuaðferðum eins og kosningafundum með flokksleiðtogunum eða sjónvarpsauglýsingum með stuðningsyfirlýsingum vinsælla frægra persóna við þennan eða hinn flokkinn. Nú á dögum ýktra hryðjuverkavarna er reyndar ekki hlaupið að því fyrir kjósendur að mæta á kosningafundi þar sem leiðtogarnir tala. Svo að ræðurnar sem þeir halda eru oftast fluttar til þess að fjölmiðlar flytji fréttir af þeim – öðru vísi næðu þær ekki eyrum nema þeirra fáu útvöldu sem hleypt er inn á kosningafundina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×