Sport

Lampard og Terry þurfa í uppskurð

Burðarásar Chelsea og Enska landsliðsins, John Terry og Frank Lampard,  þurfa báðir að fara í minniháttar uppskurði eftir að Chelsea lýkur keppni í meistaradeild Evrópu, en það þýðir líklega að þeir muni missa af æfingaferð enska landsliðsins til Bandaríkjanna eftir að tímabilinu á Englandi lýkur. "Vonandi náum við að vinna meistaradeildina, en ef það tækist, þarf ég að fara í litla aðgerð á fæti og það myndi líklega þýða að ég missi af ferðinni til Bandaríkjanna með landsliðinu. Það sama á við um John Terry, því hann á við svipuð meiðsli að stríða, sem þó eru öllu alvarlegri í hans tilfelli," sagði Frank Lampard í samtali við breska fjölmiðla. Enska landsliðið á að leika æfingaleiki við Bandaríkjamenn í Chicago þann 28. maí og Kólumbíumenn í New Jersey þann 30. Nokkrir stjórar í ensku knattspyrnunni hafa þegar lýst yfir áhyggjum sínum yfir þessari ferð landsliðsins, því þeir vilja meina að leikmenn sínir þurfi nauðsynlega á góðri hvíld að halda eftir langt og strangt tímabil í ensku úrvalsdeildinni og meistaradeildinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×