Innlent

Snarlækkun álagningar bensínverðs?

Sterkar vísbendingar eru um að stóru olíufélögin þrjú hafi snarlækkað álagningu sína eftir að Atlantsolía kom inn á markaðinn og bauð lægra bensínverð en áður hafði þekkst. Þetta er niðurstaða athugana hóps sex nemenda við Viðskiptaháskólann á Bifröst sem hópurinn var að ljúka við en á eftir að verja fyrir yfirmönnum deildar sinnar. Á þessu stigi vilja nemendurnir því ekki greina frá niðurstöðum í smáatriðum en við athuganir sínar tóku þeir mið af heimsmarkaðsverði á hverjum tíma, gengisvísitölu krónunnar og þar með gengis dollars, og smásöluverðs á íslenska markaðnum. Annars er það að frétta af íslenska olíumarkaðnum að Olíufélagið Esso hækkaði bensínlítrann um tvær krónur og fimmtíu aura í gær og er algengt sjálfsafgreiðsluverð hjá Esso nú 105,50. Olís fylgdi í kjölfarið í morgun með nákvæmlega sömu hækkun. Laust fyrir hádegið hafði Skeljungur ekki hækkað verðið en það var eina félagið sem greiddi sekt sína til Ríkissjóðs í gær fyrir ólöglegt verðsamráð olíufélaganna. Á heimasíðu Esso segir að þrátt fyrir þessa hækkun sé uppsöfnuð þörf fyrir hækkun enn meiri í ljósi þess að krónan heldur áfram að veikjast gagnvart dollar og væntingar um verðlækkun á heimsmarkaði hafi ekki gengið eftir. Reyndar fór verð á olíutunnunni niður fyrir fimmtíu dollara í fyrradag eftir að hafa komist upp í 58 dollara snemma í apríl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×