Erlent

Mega muna sinn fífil fegurri

Það er ljóst að Verkamannaflokkurinn mun bera sigur úr býtum í bresku þingkosningunum á fimmtudaginn, leiðtogar íhaldsmanna og frjálslyndra vonast helst til að fjölga þingsætum sínum svo að þeir geti velgt valdhöfunum enn frekar undir uggum á næsta kjörtímabili. Þrátt fyrir að vera báðir í stjórnarandstöðu eru litlir kærleikar með flokkunum. Enn í skugga Thatcher Íhaldsflokkurinn getur rakið upphaf sitt allt aftur á 17 öld og telst því einn elsti stjórnmálaflokkur Evrópu. Flokkurinn hefur alla tíð sett eignarréttinn og einstaklingsframtakið á oddinn en jafnframt hefur hann stutt krúnuna með ráðum og dáð. Á ofanverðri 19. öld festi flokkurinn sig enn betur í sessi undir styrkri stjórn Benjamin Disraeli og upp úr aldamótum sameinaðist hann klofningshópi úr Frjálslynda flokknum. Á 20. öldinni skiptust á skin og skúrir fyrir íhaldsmenn. Þannig leiddi íhaldsmaðurinn Winston Churchill þjóðina í gegnum hörmungar heimsstyrjaldarinnar en strax að henni lokinni beið flokkurinn afhroð í kosningum. Ríkisstjórnir manna á borð við Harold Macmillan og Edward Heath náðu bærilegum árangri á sjöunda og áttunda áratugnum en lítið þurfti til að kjósendur losuðu sig við þá. Með kosningu Margaretar Thatcher árið 1979 hófst hins vegar síðasta blómaskeið flokksins. Hún losaði um tök verkalýðshreyfingarinnar á atvinnulífi landsins og einkavæddi fjölmörg ríkisfyrirtæki - harðar aðgerðir en að flestra mati nauðsynlegar. Thatcher þekkti hins vegar ekki sinn vitjunartíma og í upphafi tíunda áratugarins var nánast gerð hallarbylting í Íhaldsflokknum. Tómarúmið sem myndaðist við brotthvarf járnfrúarinnar hefur verið erfitt að fylla. John Major leiddi að vísu flokkinn til sigurs 1992 en persónuleikabrestir ráðherra og þingmanna í ríkisstjórninni og djúpstæður málefnaágreiningur, sérstaklega um Evrópumál, reyndust Major ofviða. Því valtaði Verkamannaflokkurinn yfir íhaldsmenn í kosningunum 1997. Eftirmönnum hans, William Hague og sérstaklega Ian Duncan Smith, mistókst gjörsamlega að vinna tiltrú kjósenda á ný, enda hvorugur þeirra sérstaklega spennandi valkostur við Tony Blair. Eftir að Michael Howard tók við leiðtogaembættinu í flokknum haustið 2003 hefur stjórnarandstaðan orðið markvissari. Flokkurinn hefur að mörgu leyti tekið forystu í málaflokkum á borð við innflytjendamál og harðari aðgerðir gegn glæpum. Engu að síður bendir fátt til að Íhaldsflokkurinn muni komast í ríkisstjórn á næstu árum. Sækir í sig veðrið Frjálslyndir demókratar eiga rætur sínar að rekja til Frjálslynda flokksins sem stofnaður var á fyrri hluta 19. aldar utan um gildi frjálshyggjunnar sem þá var að ryðja sér til rúms. Á síðari hluta aldarinnar vegnaði flokknum allvel og leiddi til dæmis William Gladstone ríkisstjórnir sem skildu eftir sig spor í sögu þjóðarinnar. Framan af 20. öldinni voru frjálslyndir hins vegar örflokkur sem gekk allt í óhag. Í kosningum árið 1950 fékk flokkurinn til dæmis ekki nema 2,5 prósent atkvæða og höfðu menn á orði að þingflokkurinn kæmist til Westminster í einum leigubíl. Þegar frjálslyndir virtust vera að rétta úr kútnum um miðjan áttunda áratuginn lenti Jeremy Thorpe, leiðtogi þeirra, í erfiðum hneykslismálum og allt virtist unnið fyrir gýg. Á níunda áratugnum birti hins vegar talsvert til. Frjálslyndir gerðu bandalag í kosningunum 1983 við flokk sósíaldemókrata sem nokkrir fyrrum ráðherrar Verkamannaflokksins stofnuðu í kjölfar ósigursins í kosningunum 1979 og fékk það 25 prósent atkvæða. Árið 1988 sameinuðust svo flokkarnir og mynduðu fylkingu Fjálslyndra demókrata. Paddy Ashdown leiddi flokkinn fram til ársins 1999 þegar Charles Kennedy tók við stjórnartaumunum. Á síðustu árum hefur flokknum gengið ágætlega að skapa sér sérstöðu eins og málflutningur hans í Íraksmálinu er dæmi um. Frjálslyndir sækja helst fylgi vinstra megin við miðjuna enda telja þeir að ríkisvaldið eigi að gegna lykilhlutverki í að tryggja borgurunum jöfn tækifæri. Afnám skólagjalda og hærri ellilífeyrir eru á meðal þeirra stefnumála sem þeir setja á oddinn. Allar líkur eru á að þeim muni vegna betur í kosningunum á fimmtudaginn en oft áður og fá allt að fjórðungi atkvæða. Kosningakerfið gerir það hins vegar að verkum að þingsætin sem þeim munu hlotnast eru langtum færri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×