Erlent

Handtökur vegna hryðjuverka

Egypska lögreglan handtók tímabundið um tvö hundruð manns í gær í heimabæjum þriggja manneskja sem sprengdu sprengju og skutu á langferðabíl á ferðamannastöðum í og nærri Kaíró á laugardag. Að sögn lögreglu var með handtökunum verið að safna upplýsingum um fólkið vegna rannsóknar á hryðjuverkasamtökum á þessum slóðum. Síðdegis á laugardag sprengdi maður, sem lögregla var á hælunum á, sprengju sem hann bar á sér nærri fínu hóteli í Kaíró. Innan við tveimur tímum síðar gerðu tvær blæjuklæddar konur skotárás á ferðamannarútu og styttu sér síðan aldur, eftir því sem yfirvöld greindu frá. Konurnar kváðu hafa verið systir og heitkona fyrrgreinda mannsins. Vitni sögðu að minnsta kosti aðra konuna hafa fallið fyrir skotum lögreglu. Að sögn egypska innanríkisráðuneytisins var maðurinn grunaður um að hafa verið viðriðinn sprengjutilræði á fjölsóttum útibasar í gamla bænum í Kaíró 7. apríl síðastliðinn. Egypskum yfirvöldum er mikið í mun að hindra hryðjuverkaárásir á ferðamenn, enda er ferðaþjónusta aðalgjaldeyristekjulind landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×