Erlent

Ógnin minnkar í Bandaríkjunum

Hryðjuverkaógnin gegn Bandaríkjunum hefur snarminnkað, ekki síst vegna þess að hryðjuverkamenn al-Qaida einbeita sér nú að Írak og Evrópu. Trúverðugar vísbendingar um yfirvofandi hryðjuverkaárásir í Bandaríkjunum hafa ekki verið jafnfáar síðan fyrir árásirnar 11. september 2001, segir í Washington Post í dag. Þar segir að ógnunum hafi fækkað um 25 til 30 prósent miðað við ástandið fyrir tveimur árum. Heimildarmenn blaðsins segja nokkrar ástæður vera fyrir þessu. Aukið eftirlit og viðbúnaður í Bandaríkjunum geri hryðjuverkamönnum nánast ómögulegt að starfa þar og að fregnir um hryðjuverkamenn í leynum, sem fóru á kreik eftir árásirnar 2001, hafi reynst stórlega ýktar. Hryðjuverkamenn al-Qaida einbeiti sér nú að árásum á Bandaríkjamenn í Írak og árásum í Evrópu. Sumir heimildarmenn Washington Post innan leyniþjónusta Bandaríkjanna vara þó við því að fólk sofni á verðinum og óttast að dregið hafi úr trúverðugum vísbendingum vegna þess að al-Qaida geri sitt ýtrasta til að byggja upp falskt öryggi meðal annars með því að láta engin boð út ganga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×