Sport

Tók Man. Utd fram yfir Chelsea

Þrátt fyrir að Chelsea sé óumdeilanlega með sterkasta liðið í enskri knattspyrnu í dag þurfti liðið í gær að lúta í lægra haldi fyrir erkifjendunum í Manchester United í slagnum um þjónustu eins eftirsóttasta tánings veraldar, hins nígeríska John Obi Mikel sem er til mála hjá Lyn í Noregi. Mikel, sem lék sinn fyrsta leik fyrir Lyn í síðustu viku, skrifaði undir fjögurra ára samning við Man. Utd. og mun hann halda til félagsins að loknu tímabilinu í Noregi, í janúar árið 2006. „Ég er sjálfur hissa á að ég hafi valið Man. Utd. fram yfir Chelsea,“ sagði Mikel, sem er sóknarmaður, á blaðamannafundi í gær, en meginástæða valsins er sögð vera sú að hann taldi sig eiga meiri möguleika á að komast í liðið hjá United í framtíðinni. "Ég er mjög ánægður með að hafa loksins bundið enda á allar vangaveltur um framtíð mína. Nú get ég loksins farið að einbeita mér að því að spila fótbolta. Það er frábært að fá tækifæri hjá jafn stóru félagi og Man. Utd. Það eru ekki margir á mínum aldri sem fá svona tækifæri,“ bætti Mikel við. Það var í fyrra sem Mikel fór til reynslu hjá ensku stórliðunum og var hann ekki lengi að vekja hrifningu. Jose Mourinho lýsti Mikel sem „gulli“ eftir að hafa séð til hans fyrst og var hann að sögn mjög viss um að Mikel myndi velja Chelsea. Verður hann að láta sér enska meistaratitilinn nægja því að í slagnum um Mikel var það Alex Ferguson sem bar sigur úr býtum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×