Sport

Eiður meistari með Chelsea

Eiður Smári Guðjohnsen er orðinn Englandsmeistari í knattspyrnu, fyrstur Íslendinga. Þetta varð ljóst nú síðdegis þegar lið hans, Chelsea, sigraði Bolton með tveimur mörkum engu. Frank Lampard skoraði bæði mörk Chelsea sem fagnar nú Englandsmeistaratitli í fyrsta sinn í 50 ár. Chelsea-menn fögnuðu sigrinum og um leið titlinum ákaft í lok leiks. Guðni Bergsson, fyrrverandi fyrirliði Bolton, segir það frábæran árangur hjá Eiði Smára að vera í meistaraliði Chelsea. Það sé engin spurning að Chelsea sé eitt besta knattspyrnulið í heiminum í dag og Eiður sé einn af lykilmönnum liðsins. Hann hafi verið markahæstur Chelsea-manna í ensku úrvalsdeildinni fyrir leikinn í dag en Frank Lampard hafi komist upp fyrir hann með sínum mörkum í dag. Það sé líka gaman að því að Chelsea skyldi tryggja sér titilinn á þeim velli þar sem Eiður hafi hafið feril sinn í Englandi, þ.e. hjá Bolton. Guðni segir þetta einhver stærstu tíðindi íslenskrar knattspyrnusögu. Auðvitað hafi Ásgeir Sigurvinsson náð frábærum árangri með Suttgart í Þýskalandi árið 1984 þegar hann varð meistari og leikmaður tímabilsins og svo hafi Eyjólfur Sverrisson komið í kjölfarið. En þetta sé eitt af þessum lykilaugnablikum í íslenskri knattspyrnu- og íþróttasögu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×