Erlent

Versta lestarslys í 40 ár í Japan

Fimmtíu hið minnsta týndu lífið þegar farþegalest fór út af sporinu á háannatíma skammt frá borginni Osaka í Japan. Lestin brunaði beint inn í hús skammt frá teinunum. 300 manns slösuðust. Þetta er versta lestarslys í Japan í fjörutíu ár. Lestin, sem flutti fólk til vinnu, brunaði út af sporinu og lenti á fullri ferð ofan í bílakjallara húss sem stendur aðeins fáeina metra frá teinunum. Þrír lestarvagnar fóru út af sporinu og einn þeirra krumpaðist svo illa saman við áreksturinn að hann er nú helmingi styttri en áður. 580 farþegar voru um borð og fimmtíu fórust. 300 eru á sjúkrahúsum, misilla á sig komnir. Snemma í morgun var eitthvað af fólki enn fast undir braki lestarinnar og meira en hundrað björgunarmenn unnu að því að ná því úr brakinu. Talsmenn lestafyrirtækisins segja ekkert liggja fyrir um ástæður slyssins en að reiknilíkön sýni að lestin hefði þurft að vera á helmingi meiri hraða en leyfilegt er á slysstaðnum til þess að fara út af sporinu. Farþegar, sem japanskir fjölmiðlar hafa rætt við, segja einmitt að svo hafi virst sem lestin hefði aukið hraðann skömmu fyrir slysið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×