Sport

Phoenix - Memphis

NordicPhotos/GettyImages
Phoenix Suns státa af besta árangri allra liða í deildinni í vetur og enginn efast um að þar er á ferðinni stórkostlegt körfuboltalið. Lið Memphis á fyrir höndum það erfiða verkefni að halda niðri hraðanum á öflugasta sóknarliði deildarinnar. Enn á hinsvegar eftir að koma í ljós hvort Phoenix nær að leika sinn leik í úrslitakeppninni, en ef þeim tekst það verða þeir illviðráðanlegir. Sóknarleikur þeirra gengur út á að keyra andstæðinga sína í kaf og lykilmaður í Phoenix-hraðalestinni er leikstjórnandinn Steve Nash, sem hefur verið maðurinn á bak við ótrúlegan viðsnúning liðsins frá síðasta vetri. Nash er talinn einn af tveimur eða þremur líklegustu leikmönnunum til að hljóta nafnbótina leikmaður ársins í NBA og allir leikmenn Phoenix-liðsins segja að hann sé maðurinn á bak við bætt gengi sitt og liðsins í heild. Phoenix Suns skoruðu liða mest í vetur og skutu ófáa andstæðinga sína í kaf, en þegar í úrslitakeppnina er komið, byrjar nýtt mót. Leikir verða hægari, baráttan verður meiri og varnarleikurinn stífur. Þetta hentar liði eins og Phoenix frekar illa og sérfræðingar vestanhafs vilja meina að lið Memphis gæti átt eftir að stríða þeim nokkuð í fyrstu umferðinni, ef þeir taka hart á andstæðingum sínum. Fyrsti leikur liðanna er á sunnudagskvöld í Phoenix.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×