Sport

Ólafur á heimleið?

Svo gæti farið að Ólafur Ingi Skúlason, knattspyrnumaður hjá Arsenal, komi heim til Íslands í sumar og spili með liði í Landsbankadeildinni. Ólafur verður laus allra mála hjá Arsenal um leið og keppnistímabilinu lýkur í Englandi í maí og segist Ólafur ætla að reyna eftir fremsta megni að komast að hjá öðru liði erlendis. Nokkur lið séu inn í myndinni en ef allt fari á versta veg þá sé alltaf inni í myndinni að koma heim."Fyrir utan deildirnar í Skandinavíu og 1. deildina í Englandi, þá er ég spenntur fyrir Hollandi. Þótt mér líði mjög vel í Englandi þá er ég alveg opinn fyrir því að breyta til," sagði Ólafur Ingi í samtali við Fréttablaðið í gær, en vitað er að Groningen í Hollandi hefur í nokkurn tíma haft auga á honum. Ólafur kveðst ekkert vera að flýta sér að finna nýtt lið. "Tímabilið er ekki búið ennþá og framundan eru mikilvægir leikir fyrir mig. Landsleikirnir í byrjun júní á Íslandi eru sérstaklega mikilvægir og á þeim verða örugglega einhverjir útsendarar."Ólafur hefur þegar hafnað tilboði frá einu liði í Skandinavíu og einu neðrideildar liði á Englandi en hann vill ekki nafngreina þau þar sem líklegt er að þau hafi ekki enn gefið upp á bátinn að fá Ólaf í sínar raðir. Vitað er að lið Fylkis mun beita sér fyrir því að fá Ólaf í sínar raðir kjósi hann að snúa heim í sumar, en hann er uppalinn í Árbænum og hefur aldrei spilað fyrir annað lið á Íslandi en Fylki. Þorlákur Árnason, þjálfari liðsins, staðfesti við Fréttablaðið að félagið hefði verið í sambandi við Ólaf Inga en leikmaðurinn segir það alls ekki sjálfgefið að hann fari til Fylkis ef hann á annað borð ákveður að koma heim. "Það eru nokkur lið heima sem líta vel út og ég mun einfaldlega leita eftir því að fá sem bestan samning."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×