Sport

Ferdinand í viðræðum við United

Knattspyrnumaðurinn Rio Ferdinand hjá enska úrvalsdeildarliðinu Manchester United er vongóður um að skrifa undir nýjan samning við liðið á næstu vikum. Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United, hefur hvatt Ferdinand til að vera áfram hjá liðinu og ganga frá því sem fyrst. Ferguson vill tryggja að varnarmaðurinn knái verði áfram innan raða liðsins sérstaklega eftir að orðrómar fóru á kreik að Chelsea væri á höttunum eftir honum.   "Svona hlutir gerast ekki yfir nóttu," sagði Ferdinand. "Við verðum að krossleggja fingur og vonast til að þetta klárist en í samningaviðræðum er aldrei vitað fyrirfram hversu langan tíma þær taka."   Ferguson er sagður vera mjög pirraður yfir myndum sem birtust af Ferdinand ásamt Peter Kenyon, stjórnarmanni Chelsea-liðsins. "Það besta sem Rio getur gert er að skrifa undir þannig að málið verði frá. Hann vill semja við okkur og við erum búnir að bjóða honum góðan samning," sagði Ferguson.   Pini Zahavi, umboðsmaður Ferdinand, sagði að útkoman úr málinu væri undir United komið en ekki skjóltstæðings síns. "Honum líkar vel í Manchester en hann ætti að fá samning í samræmi við það að hann er besti miðvörður heims. Hann ætti því að fá borgað sem slíkur," sagði Zahavi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×