Sport

Pulis semur við Stoke

Ég er mjög ánægður með að þessi mál skulu vera komin á hreint og að við getum núna loksins sest niður sem ein heild og sett okkur markmið fyrir næsta ár," sagði Tony Pulis, knattspyrnustjóri íslendingaliðsins Stoke City, eftir að hafa skrifað undir árs framlengingu á samningi sínum við félagið, en hann hefði að öllu óbreyttu runnið út í sumar. "Í liðinu er góður kjarni leikmanna sem við byggjum á en við eigum von á því að missa nokkuð marga frá okkur í sumar. Vonandi náum við að leysa þá af með góðum leikmönnum sem færa okkur þennan litla liðsstyrk sem við þurfum til að komast í úrvalsdeildarklassa," bætti Pulis við. Það var um hádegisbilið í gær að Pulis skrifaði undir nýja samninginn en í gærmorgun birtist viðtal við hann í staðarblaði Stoke, The Sentinel, þar sem ekki er annað hægt en að segja að Pulis hafi verið á öndverðum meiði. Þar úthýsti hann íslensku stjórnarmönnunum hjá félaginu og þeim seinagangi sem viðhefst í vinnubrögðum þeirra. "Það verður að koma ýmsum hlutum á hreint svo að við vitum hvert við erum að stefna sem félag. Það verður að gerast núna en ekki þegar við hefjum undirbúningstímabilið í sumar," sagði Pulis. Svo virðist sem þetta hjálparkall hans hafi gert sitt gagn því örfáum klukkustundum síðar var hann kominn með nýjan samning í hendurnar."Þetta eru mjög góðar fréttir fyrir félagið og ég er viss um að stuðningsmennirnir eru sammála um það. Liðið hefur sýnt stöðugar framfarir undir stjórn Pulis og þótt við séum vonsviknir með að eiga litla möguleika á úrvalsdeildarsæti getum við huggað okkur við það að þetta er í fyrsta sinn síðan 2002 sem við höfum á engum tímapunkti verið í fallhættu," sagði Gunnar Þór Gíslason, stjórnarformaður Stoke, við undirskrift samningsins í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×