Erlent

Mikil spenna vegna geimskotsins

Mikil spenna ríkir hjá Geimferðastofnun Bandaríkjanna vegna fyrirhugaðrar ferðar geimferjunnar Discovery um miðjan næsta mánuð. Geimskot hennar verður fyrsta mannaða geimferð Bandaríkjanna síðan Kólumbía fórst í lendingu árið 2003. Allt frá því Kólumbía fórst, og með henni sjö geimfarar, hafa þúsundir manna unnið að endurbótum á þeim geimferjum sem eftir eru. Meðal annars voru gerðar tugir breytinga á grundvallarhönnun þeirra. Yfirstjórn geimferðastofnunarinnar segir að hún sé nú sannfærð um að geimferjurnar séu öruggari en nokkru sinni fyrr og því óhætt að taka þær í notkun á nýjan leik. Orsök Kólumbíu-slyssins var sú að nokkrar hitahlífar losnuðu af væng geimferjunnar. Stjórnendur á jörðu niðri vissu af því að eitthvað hafði komið fyrir hluta af hlífunum en töldu að það væri ekki alvarlegra en svo að óhætt væri að láta Kólumbíu lenda samkvæmt áætlun. Gífurlegur hiti myndast þegar geimferjurnar koma inn í gufuhvolf jarðar. Sá hiti var nægur til þess að brenna í gegnum vænginn þar sem hitahlífarnar vantaði og Kólumbía tættist í sundur. Brakið úr henni dreifðist yfir margra ferkílómetra svæði á jörðu niðri. Geimferðastofnunin var gagnrýnd harkalega fyrir kæruleysi í öryggismálum og rannsóknarnefnd sem fjallaði um slysið lagði til gagngera endurskipulagningu á starfsemi stofnunarinnar. Auk þess var krafist endurhönnunar á þeim geimferjum sem eftir eru. Þetta varð þess valdandi að Bandaríkin hafa ekki sent mannað geimfar á braut um jörðu síðan árið 2003 og hefur til dæmis verið notast við gömul rússnesk Soyus-geimför til þess að skipta um áhafnir í Alþjóðlegu geimstöðinni. Þótt yfirmenn geimferðastofnunarinnar segist vissir um öryggi Discovery má gera því skóna að þar verði taugarnar spenntar til hins ítrasta þegar geimferjunni verður skotið á loft.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×