Erlent

Enn og aftur hamfarir á Súmötru

Eins og á það væri bætandi hófst í morgun eldgos á Súmötru, skammt frá þeim slóðum sem urðu illa úti í jarðskjálftum og flóðbylgjunni um jólin. Gosið, sem hófst í Talang-fjalli í gærdag, varð þess valdandi að þúsund þorpsbúar sem búa í hlíðum fjallsins flýðu í ofboði. Sérfræðingar yfirvalda segja þó næsta víst að eldgosið valdi ekki mikilli hættu og ekki stendur til að flytja fólk á brott í stórum stíl. Eldgosið má rekja til jarðskjálfta skammt út af ströndum Súmötru undanfarið, meðal annars þeim sem olli flóðbylgjunni annan dag jóla og kostaði yfir tvö hundruð þúsund lífið. Töluverður kraftur var í gosinu en aska þeyttist allt að hálfan kílómetra upp í loftið. Röð jarðskjálfta fylgdi í kjölfarið en allir voru þeir litlir. Töluvert hefur verið um eftirskjálfta á þessu svæði undanfarið í kjölfar öflugu skjálftanna tveggja og því eru íbúar orðnir býsna slæmir á taugum. Fregnir hafa borist af því að nokkuð af fólki hafi flúið strandhéruð í nótt þegar gosið hófst og jörð skalf en engar fregnir hafa borist af slysum á fólki. Ekki færri en 129 virk eldfjöll eru á Indónesíu og jarðhræringar eru þar mjög algengar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×