Erlent

Mótmælendur loka skóla

Andstæðingar Ariels Sharon forsætisráðherra Ísraels lokuðu skólum í mótmælaskyni við áform um að leggja niður landnemabyggðir á Gaza-ströndinni. Sharon situr þó fastur við sinn keip um að stækka byggðir á Vesturbakkanum þrátt fyrir áminningu Bandaríkjaforseta. Þrír mánuðir eru þar til ísraelskir landnemar eiga að hverfa frá Gaza og er gremja þeirra af þeim sökum mikil. Á sunnudaginn gripu andstæðingar Sharon til þess ráðs að loka 167 grunn- og leikskólum á Tel Aviv-svæðinu með keðjum og hengilásum. Lögregla kom fljótlega á vettvang og opnaði skólana að nýju en atvikið eykur ótta ráðamanna um að mótmæli vegna brottflutningsins muni aukast á næstu vikum og að þau verði harðari. Sharon óttast að ísraelskir öfgamenn sitji um líf sitt og í gær var stofufangelsi eins þeirra framlengt. Eftir fund sinn með Bandaríkjaforseta á mánudaginn sagðist Sharon ætla að stækka landnemabyggðir á Vesturbakkanum þrátt fyrir tilmæli Bush um hið gagnstæða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×