Erlent

Bush skammar Sharon

George W. Bush Bandaríkjaforseti hvatti Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, til að hætta við áform sín um að stækka landnemabyggðir gyðinga á Vesturbakkanum. Leiðtogarnir hittust á búgarði Bush í Texas í gær og var hann haldinn í því augnamiði að styrkja Sharon í viðleitni hans í að leggja niður landnemabyggðir á Gaza-ströndinni. Gagnrýni Bush varð hins það sem mesta athygli vakti enda sjaldgæft að ekki sé samhljómur á milli leiðtoga Bandaríkjanna og Ísraels. Ísraelar áforma að bæta 3.650 húsum við stærstu landnemabyggð sína á Vesturbakkanum, Maaleh Adumim, en því leggjast Bandaríkjamenn gegn þar sem frekari uppbygging stefnir friðinum í hættu og brýtur auk þess í bága við ákvæði vegvísisins svonefnda. Sharon sagði eftir fundinn að hann væri sammála Bush um inntak vegvísisins en sagði engan vafa leika á að sumar landnemabyggðirnar væru hluti af Ísraelsríki og það væri réttur Ísraelsmanna að stækka þær byggðir. Báðir sögðu þeir að leiðtogar Palestínumanna yrðu að taka hryðjuverkamenn fastari tökum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×