Erlent

Tugþúsundir barna í vændi

Talið er að tugþúsundir rússneskra barna séu neyddar í vændi og framleiðslu barnakláms. Mikil fátækt og eymd gerir heimilislaus börn að auðveldum fórnarlömbum klámiðnaðarins í Rússlandi. Efnahagslegir erfiðleikar í Rússlandi, vaxandi fátækt og upplausn hefur leitt meðal annars til þess að vændi meðal barna hefur snaraukist. Heimilislaus börn sem betla á götum úti og við lestarstöðvar eru auðveld fórnarlömb glæpamanna. Fréttamenn Sky náðu myndum um hábjartan dag af mönnum sem dreifðu auglýsingapésum fyrir vændisstarfsemi, þar sem börn eru meðal annars auglýst, en þau sögð eldri en þau eru. Myndir náðust einnig af barnungum súlkum sem héldu sig við lestarstöðvar og falbuðu sig fyrir innan við 20 dollara. Hjálparsamtök hafa sett á fót neyðarskýli fyrir þessi börn. Kasusha er eitt barnanna. Hún er með lekanda, sárasótt og lifrarbólgu C. Hjálparstarfsfólk segir að ef melludólgar kæmust að því að hún er einnig HIV-jákvæð yrði hún sennilega myrt. Kasusha segir karlmenn vera viðbjóðslega; þeir séu hreinlega skrímsli. Allir þarfnist einhvers frá öðrum, sérstaklega frá ungum börnum. Anya er tólf ára. Henni var rænt úti á götu og nauðgað. Hún segir að menn í bíl sem keyrði fram hjá henni hafi boðið henni far en hún afþakkað. Þá hafi þeir dregið hana inn í bílinn og keyrt með hana í burtu. Hún vill ekki tilgreina staðinn sem þeir fóru með hana á. Jenya er enn eitt barnanna sem lent hafa í hremmingunum. Hún segist vita til þess að jafnvel tveggja og þriggja ára gömul börn drykkjusjúkra foreldra hafi verið misnotuð gegn greiðslu og það tekið upp á myndband.. Samkvæmt rannsóknum hjálparsamtaka kemur eitt mesta magnið af því barnaklámi sem til er í heiminum frá Rússlandi. Ekki er vitað hversu mörg börn verða fyrir slíku ofbeldi í landinu en reiknað er með að þau skipti tugþúsundum. Samkvæmt sömu rannsóknum er einstaklega auðvelt að nálgast barnaklám í Rússlandi. Framleiðslan og eftirspurnin er þó áberandi mest í Moskvu og Pétursborg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×