Erlent

Þúsundir mótmæla í Bagdad

Tugir þúsunda mótmælenda hrópuðu "Nei við Ameríku" á fjölmennustu mótmælasamkomu sem fram hefur farið í Bagdad frá því landið var hernumið af Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra. Upp á dag tveimur árum eftir að stór stytta af Saddam Hussein var felld af stalli á torgi í miðborg Bagdad söfðuðust fylgismenn róttæks leiðtoga sjía-múslima, Muqtata al-Sadr, þar saman í gær til að mótmæla hernáminu og felldu og brenndu líkneski af George W. Bush Bandaríkjaforseta, Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og Saddam Hussein. "Þessi stóra samkoma sýnir að íraska þjóðin hefur þann styrk og þá trú sem þarf til að verja land sitt og frelsa það undan hernáminu," hefur AP-fréttastofan eftir Ahmed Abed, 26 ára gömlum þátttakanda í mótmælafundinum. Talsmenn bandarískra yfirvalda hafa ekki viljað festa neina dagsetningu á það hvenær hernáminu skuli ljúka, en hafa heitið því að bandarískir hermenn verði í Írak þar til eigin öryggissveitir og her nýrrar lýðræðilega kjörinnar Íraksstjórnar verða færar um að tryggja öryggi í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×