Erlent

Misnotuð og grafin lifandi

Flórídabúar eru slegnir óhugnaði vegna morðs á níu ára stúlku sem var grafin lifandi eftir að hafa verið misþyrmt kynferðislega. Jessica Marie Lunsford var numin á brott þar sem hún lá sofandi í herbergi sínu í lok febrúar. Hún fannst ekki fyrr en mánuði seinna, þá látin og grafin rétt hjá heimili sínu. Morðingi hennar, John Couey, á sér þrjátíu ára glæpasögu og er margdæmdur kynferðisbrotamaður. Hann bjó, án vitundar lögregluyfirvalda, hjá hálfsystur sinni í næsta húsi við Jessicu. Eftir að Jessica hvarf fór í gang umfangsmikil leit og meðal annars var bankað upp á hjá hálfsystur Couey. Jessica gæti hafa verið á lífi þegar það gerðist. Líkskoðun leiddi í ljós að banamein Jessicu var köfnun. Couey hefur nú játað að hafa rænt henni, nauðgað og grafið lifandi. Lögregla var með Couey á skrá yfir þekkta kynferðisbrotamenn og bar honum skylda til þess að tilkynna reglulega um ferðir sínar og heimilisfang. Það hafði hann ekki gert í þessu tilfelli og hefur lögregla handtekið hálfsysturina og annað sambýlisfólk fyrir að tilkynna ekki um veru hans í húsinu. Hefðu þau gert það telur lögreglan að lífi Jessicu hefði hugsanlega verið þyrmt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×