Erlent

Skyldaðir í þýskunám

Útlendingum, sem ekki hafa þýsku að móðurmáli, kann að verða gert að taka 300 þýskukennslutíma til að uppfylla skilyrði fyrir varanlegu dvalarleyfi í Austurríki. Kveðið er á um þetta í stjórnarfrumvarpi sem er til umfjöllunar á austurríska þinginu. Verði frumvarpið að lögum verða allir erlendir dvalarleyfishafar, sem hafa ekki sannanlega sæmilegt vald á tungu heimamanna, að sýna fram á að þeir hafi þegið tilsögn í málinu í alls 300 tíma áður en fimm ár eru liðin frá komunni til landsins, eða vera sendir úr landi ella. Borgarar Evrópusambandslanda verða undanþegnir reglunum. "Árangursrík aðlögun er einungis möguleg ef fólk talar góða þýsku," sagði talsmaður innanríkisráðuneytisins í Vínarborg. Samkvæmt gildandi lögum, sem sett voru árið 2003, verða innflytjendur að taka 100 þýskutíma á innan við fjórum árum eða sæta brottvísun úr landi ella. Nýju lögunum er ekki síst ætlað að skrúfa fyrir margar undanþáguleiðir sem eldri lögin hafa í reynd boðið upp á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×