Erlent

Segja að Fischer verði sleppt

Bobby Fischer verður sleppt úr haldi og fær ferðafrelsi til þess að fara til Íslands, að því er kemur fram í Kyodo News, en blaðið hefur þetta eftir japanska dómsmálaráðuneytinu. Þetta hefur ekki fengist staðfest en Reuters-fréttastofan greindi frá þessu fyrir stundu. Þórður Ægir Óskarsson, sendiherra Íslands í Japan, tilkynnti fulltrúum japanska dómsmálaráðuneytisins í morgun að Bobby Fischer væri formlega orðinn íslenskur ríkisborgari. Gefið hefur verið út neyðarvegabréf fyrir Fischer ytra og vantar aðeins undirskrift hans til að það öðlist gildi. John Bosnitch, talsmaður Bobbys Fischers í Japan, segir nú öll skilyrði fyrir hendi til þess að leysa Fischer úr haldi strax á morgun, skírdag, eða í síðasta lagi á föstudaginn langa. Bandarísk stjórnvöld hafa ítrekað við yfirvöld í Japan þá kröfu að Fischer verði sendur til Bandaríkjanna. Þórður Ægir sagði í samtali við fréttastofu nú rétt fyrir klukkan tíu að engin formleg framsalskrafa lægi fyrir af hálfu Bandaríkjastjórnar vegna Fischers.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×