Erlent

Frumur fremja sjálfsmorð

Vísindamenn hafa fundið aðferð til að fá krabbameinsfrumur til að fremja sjálfsmorð. Þessar niðurstöður eru kynntar í hinu virta tímariti Genes and Development. Það voru vísindamenn við danska krabbameinsfélagið sem gerðu þessa uppgötvun. Í tilraunum sínum létu þeir gervisameindir ráðast á mismunandi krabbameinsfrumur, þar á meðal þrjár gerðir sem finnast í brjóstakrabbameini og eina tegund sem finnst í lifrarkrabba. Niðurstöðurnar voru að þessar sjúku krabbameinsfrumur frömdu hreinlega sjálfsmorð innan nokkurra daga þar sem þær gátu ekki lengur framleitt ákveðna tegund prótíns. Það prótín á ríkan þátt í að halda krabbameinsfrumum á lífi. Þórarinn Guðjónsson, doktor í frumulíffræði, segir aðspurður að rannsóknin sýni að menn séu að ná árangri í rannsóknum við að stýra krabbameinsfrumum í dauða og það sé í sjálfu sér mikill árangur. Hann segir að menn beini sjónum sínum að fleiri nálgunum og það gefi vissar vonir um að hægt verði að nota þetta í meðferð krabbameinssjúklinga. Þau krabbameinslyf sem nú eru til gera ekki greinarmun á heilbrigðum frumum og krabbameinsfrumum. Vísindamennirnir binda vonir við að þróa megi lyf sem byggist á þessum rannsóknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×