Erlent

Skaut tveggja ára bróður sinn

Tveggja ára bandarískur drengur liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir að fjögurra ára bróðir hans skaut á hann úr byssu móður þeirra. Atburðurinn átti sér stað um helgina í Houston í Texas. Bræðurnir, tveggja og fjögurra ára, voru heima við og voru að rífast um leikfang þegar þeim eldri datt í hug að gera út um rifrildið með því að sækja byssu móður sinnar. Cameron Grysen, lögreglumaður hjá lögreglunni í Houston, segir að sá fjögurra ára hafi reiðst hinum tveggja ára og þeir hafi rifist heiftarlega. Sá eldri hafi vitað að móðir hans ætti byssu í veskinu sínu og hann hafi sótt hana, miðað henni á höfuðið á bróður sínum og skotið. Yngri drengurinn fékk skotsár á gagnaugað og liggur nú þungt haldinn á gjörgæsludeild. Sérfræðingar segja að drengurinn sem skaut úr byssunni hafi ekki einu sinni þroska til að gera greinamun á raunverulegri byssu og leikfangabyssu. Atvik sem þessi eru algeng í Bandaríkjunum en aðeins eru nokkrir dagar síðan fimm ára drengur, einnig í Texas, fann hlaðna byssu föður síns inni í svefnherbergi og skaut og særði móður sína.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×