Erlent

Assad lofar að draga herinn burt

Yfirvöld í Sýrlandi hafa lofað að láta Sameinuðu þjóðunum í té tímaáætlun um brottflutning sýrlenskra hermanna frá Líbanon í næstu viku. Terje Roed-Larsen, sendiboði Sameinuðu þjóðanna, lýsti þessu yfir eftir fund með Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í sýrlensku borginni Aleppo í gær. Roed-Larsen sagði að á fundinum hefði Assad sagst ætla að draga allt herlið og leyniþjónustuna frá Líbanon. Samkvæmt því ætla sýrlensk yfirvöld að virða ályktun Sameinuðu þjóðanna númer 1559 sem samþykkt var í september síðastliðnum og kveður á um brottflutning hersins frá Líbanon. Roed-Larsen sagði að Assad myndi kynna tímaáætlunina fyrir Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, á fundi í New York í næstu viku. "Fundurinn með Assad var mjög góður og ég er mjög vongóður eftir að forsetinn fullvissaði mig um að Sýrlendingar hygðust virða ályktun 1559," sagði Roed-Larsen. Sýrlendingar hafa verið með herlið í Líbanon síðan árið 1976 þegar borgarastyrjöld geisaði í landinu. Um fjórtán þúsund sýrlenskir hermenn eru í Líbanon núna og í fyrrakvöld fór hluti af um sex þúsund manna herliði, sem er í norðurhluta landsins, aftur til Sýrlands. Sýrlendingar hafa orðið fyrir auknum þrýstingi frá Vesturlöndum, sem og arabalöndunum, eftir að Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra Líbanons, var myrtur í síðasta mánuði. Stjórnarandstaðan í Líbanon sagði Sýrlendinga standa á bak við morðið. Sýrlenskir ráðamenn funduðu með líbönskum ráðamönnum 5. mars. Eftir fundinn tilkynnti Assad að herliðið yrði flutt á brott í tveimur áföngum. Roed-Larsen sagði að í fyrri áfanganum yrðu her- og leyniþjónustumenn fluttir í Bekaa-dalinn í Líbanon fyrir lok þessa mánaðar. Í seinni áfanganum yrði allt herliðið flutt á brott, starfsmenn hersins og leyniþjónustunnar og allt sem þeim fylgir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×