Erlent

Hamas taka þátt í kosningunum

Hamas-samtökin ætla að taka þátt í þingkosningum í Palestínu í sumar og verður rétturinn til vopnaðrar baráttu efst á stefnuskránni. Þetta gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir friðarferlið. Leiðtogar Hamas greindu í morgun frá því að stefnt væri að þátttöku í þingkosningunum sem fram eiga að fara sautjánda júlí næstkomandi. Búist var við yfirlýsingunni en þetta eru engu að síður mikil tíðindi og gætti þýtt að Hamas keppi við Fatah-hreyfingu Mahmouds Abbas, forseta Palestínu. Í bæjar- og héraðskosningum í janúar bar Hamas sigurorð af Fatah. Hreyfingin hlaut mikinn meirihluta sæta á Gasa-ströndinni, alls sjötíu og sjö kjörna fulltrúa af hundrað og átján, og á Vesturbakkanum hlaut Hamas þrjátíu prósenta fylgi. Stjórnmálaskýrendur lesa ýmislegt úr ákvörðun Hamas, til að mynda að þetta skref þýði að leiðtogar samtakanna hafi áhuga á þátttöku í hefðbundnum stjórnmála og vilji þannig hafa áhrif. Það gæti leitt til þess að stefna Hamas mildaðist nokkuð, og ef ekki er næsta víst að þátttaka Hamas í stjórnmálum hefði alvarleg áhrif á friðarferlið. Það er grundvallarstefna Hamas að sjá til endaloka Ísraelsríkis, og leiðtogar samtakanna sögðu í morgun að grundvöllur stefnunnar í þingkosningum væri einmitt réttur Palestínumanna til að halda vopnaðri baráttu áfram þar til landnámi Ísraela á svæðum Palestínumanna lýkur. Hamas-samtökin njóta töluverðra vinsælda meðal Palestínumanna og því allt eins líklegt að samtökunum vegni vel í kosningunum. Fari svo, er ljóst að það grefur verulega undan friðarstefnu Mahmoud Abbas, forseta Palestínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×