Erlent

Óvíst um endanlegt brotthvarf

Forsetar Sýrlands og Líbanons tilkynntu í gær að Sýrlendingar myndu safna hersveitum sínum í Líbanon saman í Bekaa-dalnum sem er við landamæri ríkjanna fyrir lok mánaðarins. Bashar Assad og Emile Lahoud, forsetar Sýrlands og Líbanons, hittust í Damaskus í gær og ákváðu þetta og hófust herflutningar frá norður- og miðhluta Líbanons strax í kjölfarið. Engin ákvörðun var þó tekin um endanlegan brottflutning hersins frá landinu heldur sögðust leiðtogarnir ætla að ákveða hann síðar. Forsetarnir sögðust í yfirlýsingu sinni ætla að virða ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna án undanbragða en hún kveður á um að Sýrlendingar hætti afskiptum af málefnum Líbanons. Með þessu sendu þeir Ísraelsmönnum tóninn sem hafa virt að vettugi ályktanir þar sem þeir eru hvattir til að skila aftur landsvæðum sem þeir tóku í stríðinu árið 1967. Mótmæli gegn stjórninni héldu áfram í Beirút í gær. Í dag hafa Hizbollah-samtökin hins vegar hvatt til friðsamlegra mótmæla Sýrlendingum til stuðnings.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×