Innlent

Reknir samstundis

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa nokkrir svokallaðir harkarar, sem aka leigubílum í umboði eigendanna, verið látnir taka pokann sinn nýlega eftir að upp komst að þeir keyrðu farþega visvitandi á röngum taxta. Framkvæmdastjórar beggja stóru leigubílastöðvanna vilja lítið tjá sig um málið. Um er að ræða minnst fjóra aðila sem þetta stunduðu um hríð í mismiklum mæli. Fengu þeir reisupassann um leið og upp komst og munu aldrei starfa á leigubílum að nýju. Heimildir blaðsins herma að þrír þessara manna hafi starfað hjá Bifreiðastöð Reykjavíkur, BSR, en framkvæmdastjórinn Guðmundur Börkur Thorarensen fullyrðir að engin slík mál hafi komið upp. Hann viðurkennir hins vegar að stöðin noti ekki tölvukerfi og því erfiðleikum bundið að komast að hinu sanna. Öðru máli gegnir um bílstjóra hjá Hreyfli en þar eru allar færslur og breytingar bílstjóra á mælum sínum skráðar jafnóðum í tölvukerfið. Framkvæmdastjóri þess fyrirtækis, Sæmundur Kr. Sigurlaugsson, neitar að slíkt mál hafi komið á sitt borð en segir skemmd epli inn á milli í leigubifreiðaakstri eins og annars staðar en í heildina sé stéttin öll afar vönd að virðingu sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×