Erlent

Harmleikur í Hillah

Í það minnsta 115 manns fórust í sjálfsmorðssprengjuárás í Írak í gærmorgun. Tilræðið er það mannskæðasta síðan landið var hernumið fyrir tæpum tveimur árum. Hryðjuverkið var framið í bænum Hillah í sunnanverðu Írak snemma í gærmorgun. Tilræðismaðurinn ók bifreið fullri af sprengiefni að heilsugæslustöð þar sem fjöldi umsækjenda um störf í lögreglunni beið eftir að komast í læknisskoðun. Sprengingin var svo öflug að nánast ekkert var eftir af bifreiðinni nema vélin. Í það minnsta 115 týndu lífi og á annað hundrað manns særðist alvarlega þannig að búast má við að tala látinna eigi enn eftir að hækka. Mikið öngþveiti skapaðist þegar reiðir ættingjar þustu á vettvang og vildu vita um afdrif ástvina sinna. Gatan var lituð blóði og sjá mátti handleggi, fætur og aðra líkamshluta liggja eins og hráviði úti um allt. Árásin er sú mannskæðasta síðan Írak var hernumið fyrir tæpum tveimur árum. Í ágúst 2003 dóu 85 manns þegar sprengja sprakk fyrir utan mosku í Najaf en í mars á síðasta ári týndu tæplega 200 manns lífi þegar margar hryðjuverkaárásir voru gerðar á sama tíma gegn sjíum í Bagdad og Karbala. Ekki er vitað hverjir standa að baki tilræðinu en þorri íbúa Hillah er sjíar. Því er talið líklegt að öfgafullir súnníar beri ábyrgð á því en þeir hafa verið stórtækir í árásum á sjía síðastliðnar vikur. Yfir hundrað sjíar dóu í sprengjuárásum á meðan Ashoura-hátíð þeirra stóð yfir í síðasta mánuði. Einnig var gerð bílsprengjuárás í gær við eftirlitsstöð lögreglu í bænum Musayyib, skammt frá Bagdad. Þar dó að minnsta kosti einn lögreglumaður og fleiri særðust. Hryðjuverkin voru framin aðeins degi eftir að sýrlensk yfirvöld handsömuðu Sabawi Ibrahim al-Hassan, hálfbróður Saddams Hussein, ásamt 29 félögum hans en al-Hassan er talinn hafa fjármagnað hermdarverk í Írak síðustu misserin. Ráðamenn víða um heim fordæmdu tilræðin harðlega í gær. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hét Írökum stuðningi sínum við að koma tilræðismönnunum á bak við lás og slá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×