Innlent

Sætta sig ekki við heildarþak

Sjúkraþjálfarar eru tregir til að lækka verð fyrir þjónustu sína eftir að ákveðnum fjölda skjólstæðinga er náð eins og heilbrigðisráðuneytið fer fram á. Þörfin fyrir sjúkraþjálfun eykst stöðugt vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og breyttrar heilbrigðisstefnu sem felst meðal annars í styttri legutíma á sjúkrahúsum. Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa setið á fundi með samninganefnd heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins í húsnæði Tryggingastofnunar ríkisins frá því klukkan tvö í dag. Deilan er sögð á viðkvæmu stigi og óljóst hvort semjist í dag en á morgun rennur samningur stofnunarinnar við sjúkraþjálfara út. Eftir þann tíma þurfa skjólstæðingar sjúkraþjálfara að greiða fullt verð fyrir þjónustu þeirra án greiðsluþátttöku stofnunarinnar. Þar getur munað þúsundum króna. Helsti ásteytingarsteinninn í deilunni er svokallað heildarþak en Tryggingastofnun vill aðeins niðurgreiða þjónustu fyrir ákveðinn fjölda fólks fyrir hvern þjálfara. Eftir það þurfa þjálfararnir að taka á sig mismuninn sjálfir. Gjaldskráin lækki því stig af stigi eftir því sem sjúklingum fjölgar, en þeim fjölgar ört vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og þeirrar stefnu heilbrigðisyfirvalda að stytta legutíma á sjúkrahúsum. Kristján H. Ragnarsson, formaður Félags sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, segir að deilan snúist um rekstrargrundvöll stofanna en sýnt hafi verið fram á það með dæmum að samningurinn hafi ekki haldist í hendur við aukinn kostnað. Sjúkraþjálfarar geti því ekki tekið á sig kvóta eða aðrar skerðingar að óbreyttu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×