Innlent

Nýja Helgafellið afhent

Nýtt 11 þúsund tonna skip Samskipa var afhent stjórn félagsins við hátíðlega athöfn í Hamborg á föstudag að viðstöddum Ólafi Davíðssyni sendiherra og fleiri gestum. Skipið hlaut nafnið Helgafell og leysir af hólmi gamla Helgafellið á siglingaleiðinni milli Íslands og Evrópu. Það kom í hlut Arneyjar Guðmundsdóttur, starfsmanns í mötuneyti Samskipa, að skíra nýja skipið en hún var valin til verksins úr hópi allra kvenkyns starfsmanna félagsins á Íslandi í happdrætti sem fram fór við vígslu nýrra höfuðstöðva Samskipa á dögunum. Fyrsta áætlunarferð nýja Helgafellsins verður 1. mars nk. frá Rotterdam og er það væntanlegt til hafnar í Reykjavík úr jómfrúarferðinni þann 9. mars. Skipið getur flutt 908 gámaeiningar (TEU), eða rúmlega 200 gámaeiningum meira en gamla Helgafellið, og burðargetan er allt að 11.143 tonn. Ganghraði skipsins er allt að 18,4 sjómílur á klst., það er 138 metra langt og 21 metra breitt og í áhöfn eru 11 menn, allt Íslendingar. Skipið er hins vegar skráð í Færeyjum af rekstrarlegum ástæðum.
Stjórnendur Samskipa og stjórnendur Helgafellsins fyrir framan nýjasta skip Samskipaflotans: F.v. Ásbjörn Gíslason, forstjóri erlendis, Magnús Helgason yfirvélstjóri, Knútur G. Hauksson, forstjóri á Íslandi, Steingrímur Sigurgeirsson skipstjóri og Ólafur Ólafsson stjórnarformaður.MYND/Vísir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×