Erlent

Laug um NASA-vísindasamkeppni

Því verður ekki neitað að Saurabh Singh er frakkur. Hann laug því til að hann hefði unnið aðþjóðlega vísindasamkeppni NASA, keppni sem er ekki einu sinni til, en fékk samt alla til að trúa því. Singh er sautján ára og kemur frá einu fátækasta héraði Indlands. Það vakti því ekki litla athygli þegar fréttist að hann hefði sigrað í vísindakeppni Bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA. Héraðsstjórnin í Uttar Pradesh veitti honum nokkur hundruð þúsund króna verðlaun og fjölmiðlar hömpuðu snillingnum. Meira að segja forseti landsins sá ástæðu til að bjóða honum í heimsókn og segja má að þá hafi spilaborgin hrunið því þegar nánar var að gáð var saga Singh vægast sagt ótrúleg. Hann segist hafa tekið próf NASA í Oxford, ásamt forseta Indlands og eina indverska geimfaranum, sem fórst í Colombíu-slysinu fyrir meira en ári. Hann sagðist hafa gist í Lundúnum en tekið leigubíl til Oxford á hverjum degi, en það er 230 kílómetra leið. Að vísu er þetta langa ferðalag skiljanlegt því Singh gisti í Buckingham-höll, nema hvað. Og verðlaunaskjalið sem Singh fékk er stórundarlegt. Í fyrstu kannaðist enginn við nöfn þeirra sem skrifuðu undir það, þangað til að það rann upp fyrir mönnum að hugsanlega myndi nærri ólæs Indverji skrifa nöfn sumra yfirmanna NASA eins og á skjalinu. Málið er auðvitað ákaflega vandræðalegt fyrir allt fyrirfólkið sem féll fyrir gabbinu en Singh sætir nú lögreglurannsókn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×