Erlent

Heita stuðningi við þjálfun Íraka

Leiðtogar allra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hétu stuðningi ríkja sinna við þjálfunaráætlun bandalagsins sem miðar að því að gera íraska herforingja reiðubúna til að stýra hersveitum og taka við stjórn baráttunnar gegn vígamönnum. Þau ríki sem hafa verið andvíg áætluninni munu hins vegar takmarka þátttöku sína við aðgerðir utan Íraks. Frakkar voru síðastir til að samþykkja þátttöku í þjálfunaráætluninni en áður höfðu þeir ásamt Þjóðverjum og nokkrum öðrum Evrópuríkjum bannað hermönnum sínum í stjórnstöðvum Nató að taka þátt í áætluninni. Þeirra þátttaka takmarkast þó við störf eins herforingja sem kemur að samræmingu starfsins í hernaðarstjórnstöð Nató í Belgíu. Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, sagði í viðtali við Allgemeine Zeitung að ágreiningur Þjóðverja og Bandaríkjanna varðandi Íraks hefði verið leystur. George W. Bush Bandaríkjaforseti er væntanlegur til Þýskalands í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×