Erlent

Búist við dræmri kosningaþátttöku

Spánverjar hófu í morgun að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins. Búist er við dræmri kosningaþátttöku en að stjórnarskráin verði samþykkt. Bæði stjórn og stjórnarandstaða styðja nýju stjórnarskrána og fastlega er reiknað með að hún verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Spánn er fyrsta landið þar sem slík atkvæðagreiðsla fer fram en öll 25 sambandslöndin verða að samþykkja hana til að hún taki gildi. Níu Evrópuríki hafa tilkynnt að þau muni halda þjóðaratkvæðagreiðslu, tvö eru óákveðin en aðrir ætla að láta þingið greiða atkvæði um málið. Nýja stjórnarskráin á að breyta og auðvelda ákvarðanatöku innan sambandsins eftir að tíu þjóðir úr Austur-Evrópu gengu í sambandið í maí í fyrra. Á kjörskrá eru 35 milljónir manna en búist er við dræmri þátttöku, allt niður í 40-50 prósent. Ströng öryggisgæsla er víða um landið og yfir hundrað þúsund lögreglumenn eru á varðbergi. Í gærkvöldi fundust litlar sprengjur í höfuðstöðvum tveggja stjórnmálaflokka. Við aðra fannst miði sem á stóð: Enga fasista- eða heimsveldisstjórnarskrár. Þrátt fyrir spár um dræma kosningaþátttöku vonast stjórnmálamenn til þess að úrslitin verði skýr og þar með verði send sterk skilaboð til annarra landa Evrópusambandsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×