Erlent

Nærri 130 börn látin vegna kulda

Tæplega 130 afgönsk börn hafa látist úr kulda á síðustu vikum. Örvæntingarfullir foreldrar gefa börnunum sínum ópíum til að lina þjáningarnar, segir heilbrigðisráðherra landsins. Mörg hundruð Afganir eru sagðir látnir síðan mikill snjór og frost lagðist yfir meirihluta landsins rétt fyrir áramót. Staðfest er að 128 börn hafa látist vegna kuldans, m.a. úr lungnabólgu. Heilbrigðisráðherra landsins sagði við fréttamenn AP í dag að örvæntingarfullir foreldrar gæfu börnum sínum ópíum í þeirri trú að það læknaði sjúkdómana en það róaði einungis börnin í skamma stund og gerði þau að fíklum. Þrátt fyrir aðstoð stofnana alþjóðasamfélagsins síðastliðin þrjú ár búa margir Afganir enn í búðum þar sem skortir heilsugæslu og skjól fyrir kuldanum. Gul Rahman, einn þeirra sem búa í gömlum flóttamannabúðum, segir að of kalt sé í veðri og að kona og tvö börn hafi dáið í búðunum. Ef yfirvöld geti ekki hjálpað landsmönnum verði þeir í miklum vandræðum. Verst er ástandið í vesturhluta landsins, í Hindu Kush fjöllum, þar sem vegir eru tepptir vegna snjóa og erfitt að koma aðstoð til þeirra sem þurfa á henni að halda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×