Erlent

Ánægjulegir endurfundir

Örvæntingarfullri leit indónesískrar konu að tíu ára gömlum syni sínum sem týndist eftir hamfaraflóðin á annan dag jóla er loksins lokið. Tilviljun réði því að mæðginin sameinuðust á ný. Iwan Nafis var staddur hjá ömmu sinni og afa þegar hörmungarnar dundu yfir. Hann komst lífs af og var farið með snáða í neyðarbúðir sem reistar höfðu verið í kjölfar flóðanna. Áfallið var hins vegar það mikið fyrir Iwan litla að hann gat ekki munað hvar foreldrar hans áttu heima né hvað þau hétu. Á sunnudaginn ákváðu starfsmenn búðanna að gera sér og börnunum glaðan dag og fóru í ökuferð um Banda Aceh og þegar þau óku grunlaus inn í götuna þar sem Iwan átti heima í rofaði til í huga hans. Í framhaldi af því var mögulegt að finna foreldra hans. Það varpar hins vegar skugga á endurfundina að tveggja systkina Iwan er ennþá saknað. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna áætlar að allt að 8000 börnum frá Aceh-héraði hafi orðið viðskila við foreldra sína en svæðið varð hörmulega úti í hamförunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×