Erlent

Öngþveiti í Madrid

Um tíu þúsund manns í Madríd á Spáni komust ekki til vinnu sinnar í fjármálahverfi borgarinnar í gær sökum hættunnar af frekara hruni úr háhýsinu sem brann þar til kaldra kola á laugardagskvöldið. Varð öngþveiti í borginni vegna brunans þar sem almenningssamgöngur voru takmarkaðar og um 600 þúsund manns komust ekki leiðar sinnar í gærmorgun. Windsor turninn, sem svo er kallaður, var einn af tiltölulega fáum háhýsum í höfuðborg Spánar, alls 32 hæðir og stóð í því sem af borgarbúum er gjarnan kallað fjármálahverfið þótt ekki sé um eiginlegt slíkt hverfi að ræða eins og þekkist í öðrum stórborgum í Evrópu. Stóð byggingin við eina helstu verslunarmiðstöð El Corte Inglés í Madríd en margir Íslendingar þekkja það vörumerki afar vel. Rannsóknaraðilar hófu eftirgrennslan sína í gær á upptökum eldsins en flestir hallast að því að um rafmagnsbilun hafi verið að ræða. Þó eru ekki aðrir möguleikar útilokaðir og hefur borgarstjóri Madrídar, Alberto Ruiz Gallerdon, farið fram á ítarlega rannsókn og skal öllu til kostað enda um stóran vinnustað að ræða. Enn verða rannsóknarmenn að fara varlega því talin er hætta á að burðarvirki hússins falli saman og þá er ekki spurt að leikslokum fyrir þá sem inni í húsinu eru. Þeir íbúar Madrídar sem vitni urðu að ósköpunum óttuðust í fyrstu að um skipulagða árás al-Kaída hefði verið að ræða en fáir hafa enn jafnað sig á þeim hörmungum sem þar urðu í mars á síðasta ári þegar rúmlega 200 manns létust í sprengjutilræðum á lestarstöðvum í borginni. Þess utan hafa Aðskilnaðarsamtök Baska verið að færa sig upp á skaftið að nýju eftir hlé en þau samtök hafa reglulega í um 20 ár sprengt sprengjur hér og þar í borginni oft með alvarlegum afleiðingum. Engin ákvörðun hefur verið tekin hvort reyna eigi að endurbyggja turninn aftur eða brjóta það sem eftir stendur niður og reisa nýtt hús frá grunni. - aöe



Fleiri fréttir

Sjá meira


×