Erlent

Skýjakljúfur eyðilagðist í eldi

"Þetta er mesti eldsvoðinn í sögu borgarinnar," sagði Alberto Ruiz-Gallardon, borgarstjóri í Madríd, þar sem hann stóð fyrir framan Windsor-skýjakljúfinn í miðborg Madrídar sem eyðilagðist í eldi, sem kviknaði laust fyrir miðnætti á laugardagskvöld, og brann fram eftir degi í gær. Slökkviliðsmenn fengu ekkert við eldinn ráðið. Eldhafið var gríðarlegt og hitinn og reykurinn svo mikill að slökkviliðsmenn komust ekki inn í bygginguna til að reyna að slökkva eldinn. Nokkrar efstu hæðir byggingarinnar hrundu og sögðu slökkviliðsmenn í gær að svo gæti farið að öll byggingin myndi hrynja. Sjö slökkviliðsmenn voru fluttir á sjúkrahús vegna reykeitrunar en sex þeirra fengu fljótlega að fara heim. Ekki er vitað hvers vegna eldurinn kviknaði. Byggingin var næsta mannlaus þegar eldurinn braust út og komust allir út heilir á húfi. Windsor-skýjakljúfurinn var reistur á árunum 1973 til 1979 og var eitt af kennileitum borgarinnar. Hann var 32 hæðir og 106 metrar á hæð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×