Erlent

Greiða hálfan milljarð í bætur

Stjórnendur McDonald´s hafa samþykkt að greiða rúmlega hálfan milljarð króna til að binda enda á málaferli gegn fyrirtækinu. Í tilkynningu frá McDonald's í september 2002 kom fram að fyrirtækið myndi hætta að nota jurtaolíu með transfitusýrum, til að steikja franskar kartöflur og annan mat, innan fimm mánaða. Þegar sá frestur rann út tilkynnti fyrirtækið um seinkun á áformum sínum. Samtökin BanTransFats töldu að þetta hefði ekki verið kynnt nægjanlega vel og höfðuðu mál á hendur McDonald's þar sem þeim þótti gefið til kynna að matvælin sem fyrirtækið býður upp á væru heilsusamlegri en raunin er. Málinu lauk með dómsátt þar sem McDonalds samþykkti að greiða 430 milljónir til bandarísku hjartaverndarsamtakanna og um hundrað milljónir til að kynna fólki að gamla olían væri enn notuð á stöðum þeirra. Björn Ingimarsson, rekstrarstjóri veitingastaða McDonald's á Íslandi, segir að skipt hafi verið um olíu hér fyrir fjórum árum síðan og notuð önnur olía en notuð er í Bandaríkjunum. "Í dag notum við jurtaolíu sem er búin að vera í gangi í Þýskalandi og víðar," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×