Erlent

Tugir særðust í sprengjuárás

"Það sem bjargaði mér var tölvan mín," sagði Manuel Amenteros eftir að sprengja þeytti honum úr sæti sínu á skrifstofu í útjaðri Madrídar í gærmorgun. 43 særðust þegar bíll hlaðinn sprengiefnum var sprengdur í loft upp frammi fyrir skrifstofubyggingu. ETA, herskárri aðskilnaðarhreyfingu Baska, er kennt um árásina. Tæpum klukkutíma áður en sprengjan sprakk varaði maður sem sagðist tala fyrir hönd ETA við sprengingu á þeim slóðum þar sem sprengingin varð. Gluggar nærliggjandi húsa brotnuðu og skárust flestir þeir sem særðust á fljúgandi glerbrotum. "Ég var mjög heppinn," sagði Julio del Valle, sem slapp með skrámur á öðrum handleggnum. Skrifstofa hans var beint á móti staðnum þar sem sprengingin varð og þrýstingurinn braut rúðuna. "Ég vil segja hryðjuverkamönnum ETA, og stuðningsmönnum þeirra, að það er ekkert pláss fyrir þá, hvorki í spænskum stjórnmálum né þjóðlífi," sagði Jose Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, eftir árásina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×