Erlent

Hóta að hefja nýja áætlun

Forseti Írans segir að landið geti tekið upp nýja stefnu í kjarnorkumálum sem hefði gríðarlegar afleiðingar ef viðræður við Evrópusambandið bera ekki árangur. Evrópusambandið hefur undanfarin misseri reynt að ná samningum við Íran um að hætta að framleiða kjarnorkueldsneyti sem hægt er að nota til þess að framleiða kjarnorkusprengjur. Vestrænir leiðtogar treysta ekki Írönum og Evrópusambandið hefur því meðal annars boðist til þess að útvega þeim það eldsneyti sem þeir þurfi til orkuframleiðslu í kjarnorkuverum sínum. Þessu hafa Íranar fram til þessa hafnað. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að Íranar þyrftu að gera sér grein fyrir því að ef þeir féllust ekki á tilboð Evrópusambandsríkjanna yrði máli þeirra vísað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til þess að ákvarða refsiaðgerðir. Íranar svöruðu í dag fullum hálsi. Á fundi með erlendum sendiherrum sagði Mohammad Khatami, forseti Írans, að engin írönsk ríkisstjórn, hvorki í nútíð né framtíð, myndi hætta við áætlun landsins um að tileinka sér friðsamlega notkun kjarnorku og væri auðgun úrans þar innifalin. Forsetinn varaði líka við því að ef viðræðurnar við Evrópusambandið bæru ekki árangur gæti landið tekið upp nýja stefnu sem hefði gríðarlegar afleiðingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×