Erlent

Ólga meðal almennings í Bretlandi

Methagnaður hjá olíufélögunum Shell og BP í Bretlandi hefur valdið mikilli ólgu meðal þarlendra neytenda sem þykir sýnt að gríðarlegur hagnaðurinn sé bein afleiðing hárrar álagningar fyrirtækjanna á bensín og olíur. Þykir hagnaður félaganna tveggja það mikill að stjórnmálamenn eru þegar farnir að ræða um að leggja sérstakan skatt á fyrirtæki sem sýna slíka plúsa í bókhaldi sínu. Að mörgu leyti svipar ástandinu í Bretlandi til Íslands en löndin tvö bjóða þegnum sínum upp á dýrasta bensínverð í heiminum og enn fremur er skattlagning með svipuðu sniði. Um 70 prósent bensínsverðsins fer í vasa ríkisins þar eins og hér. Sem dæmi hagnaðist BP um sem nemur 114 milljónum króna á hverri klukkustund á síðasta ári en hagnaður þeirra var þó talsvert minni en gróði hins ensk-hollenska Shell. Eru margir bíleigendur á þeirri skoðun að fyrirtækin ættu að sjá sóma sinn í að minnka gróðann og lækka verð á eldsneyti sem hefur ekki verið hærra um langa hríð og segja sérfræðingar að litlar sem engar líkur séu á að olíuverð lækki mikið á næstu mánuðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×