Erlent

Stjórnin hélt velli

Ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen hélt velli í þingkosningunum í Danmörku í gær. Fylgi Venstre, flokks Rasmussens, dalaði reyndar dálítið og missti hann fjögur þingsæti frá því í kosningunum 2001 og fékk 52 menn kjörna. Íhaldssflokkurinn bætti hins vegar lítillega við sig og fékk átján menn kjörna á þing, tveimur fleiri en fyrir fjórum árum. Stuðningsflokkar ríkisstjórnarinnar áttu misjöfnu fylgi að fagna. Danski þjóðarflokkurinn bætti fylgi aðeins við sig og fékk 24 menn kjörna, tveimur fleiri en í síðustu kosningum. Kristilegir Demókratar náðu hins vegar ekki tveggja prósenta þröskuldinum og misstu þingsætin sín fjögur. Stjórnarflokkarnir og stuðningsmenn þeirra hlutu því 94 þingsæti af 179, jafnmörg og fyrir fjórum árum síðan. Fylgi Jafnaðamanna dalaði um rúm þrjú prósent og hlutu þeir 46 þingsæti, sex færri en síðast. Þetta er versta gengi flokksins í langan tíma. Mogens Lykketoft, formaður flokksins, segir niðurstöðuna vera langt frá því að vera viðunandi. Hann taki sjálfur fulla ábyrgð á því og segir það ljóst að hann muni ekki leiða flokkinn í næstu kosningum. Hvað fylgi einstakra flokka varðar hlýtur Radikale Venstre að teljast ótvíræður sigurvegari kosninganna. Flokkurinn nær tvöfaldaði fylgi sitt og fjölgaði þingmönnum sínum úr níu í sautján. Vinstri sósíalistar döluðu hins vegar lítillega, hlutu ellefu þingsæti og misstu einn mann. Einingarlistinn bætti hins vegar fylgi sitt, fjölgaði þingmönnum sínum um tvo og fékk sex menn kjörna. Stjórnarandstaðan náði því 81 þingsæti. Grænland og Færeyjar fá tvö þingsæti hvort.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×