Erlent

Ný friðarvon vaknar

Leiðtogar Ísraels og Palestínu stigu skref í átt til friðar þegar þeir lýstu í gær yfir vopnahléi eftir meira en fjögurra ára átök. Mikið verk er þó enn óunnið og verða margvísleg mál sem tengjast friðarferlinu rædd á næstu vikum og mánuðum. "Við höfum samþykkt að hætta öllum ofbeldisverkum gagnvart Palestínumönnum og Ísraelum hvar sem þeir eru," sagði Mahmoud Abbas, forseti heimastjórnar Palestínu, og sagði tíma til kominn að Palestínumenn endurheimtu frelsi sitt. "Ný friðarvon fæddist í dag í borg friðarins. Við skulum heita því að hlú að þeirra von," sagði Abbas. "Ég fullvissa ykkur um að við ætlum okkur að virða rétt ykkar til að standa á eigin fótum og lifa í sæmd. Ég hef þegar sagt að Ísrael vill ekki halda áfram að stjórna ykkur og örlögum ykkar," sagði Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels og beindi orðum sínum til Palestínumanna. Báðir lýstu þeir von um að samkomulagið í gær yrði til að endurvekja vegvísinn til friðar sem fjórveldin; Bandaríkin, Evrópusambandið, Rússland og Sameinuðu þjóðirnar, lögðu fram fyrir nokkrum árum en hefur ekki tekist að hrinda í framkvæmd vegna átakanna í Palestínu og Ísrael. Lokamarkmið vegvísisins er sjálfstætt palestínskt ríki við hlið Ísraels. Áður en það verður að veruleika þarf að semja um landamæri, stöðu flóttamanna og hvernig skal fara með stjórn Jerúsalems. Leiðtogarnir hétu því að landar þeirra létu af árásum á hvora aðra og Ísraelar hétu því að auki að sleppa 900 palestínskum föngum úr fangelsi. Palestínumenn vilja hins vegar að flestum eða öllum þeim 8.000 Palestínumanna sem eru í ísraelskum fangelsum verði sleppt. Vopnahlésyfirlýsingunni var fagnað víða um heim í gær og ljóst að miklar vonir eru bundnar við þau skref sem hafa verið stigin í átt til friðar. Óvissa ríkir þó enn um vopnahléið. Osama Hamdan, forystumaður Hamas í Líbanon, sagði samtökin ekki bundin af vopnahlésyfirlýsingunni. Hann sagði samtökin taka afstöðu til hennar út frá því hversu vel gengi að ná fram breyttri hegðun Ísraela gegn Palestínumönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×