Sport

England og Holland mætast í kvöld

Mikil eftirvænting ríkir í Englandi fyrir viðureign liðanna í kvöld og búist er við að nokkrir leikmenn fái sitt fyrsta tækifæri með landsliði sínu í leiknum. Sven Göran Eriksson, þjálfari enska liðsins, á í talsverðum vandræðum með að manna vörnina, en margir leikmenn hafa neyðst til að draga sig úr hópnum vegna meiðsla. Líklegt er talið að Shaun Wright-Phillips, leikmaður Manchester City, fái tækifæri í byrjunarliði Englendinga en hann hefur verið að leika vel fyrir lið sitt í úrvalsdeildinni í vetur. Þá hafa þeir Stuart Downing hjá Middlesbrough og Andy Johnson hjá Crystal Palace verið teknir inn í enska hópinn og er mikið í mun að sanna sig með landsliðinu. Þjálfari Hollendinga, Marco van Basten, verður einnig án nokkurra lykilmanna sinna því menn eins og Ruud van Nistelrooy og Arjen Robben geta ekki leikið vegna meiðsla. Hann er þó ekki á flæðiskeri staddur með hóp sinn sem inniheldur kappa á borð við Mark van Bommel, Rafael van der Vaart og markahrókinn Roy Makaay frá Bayern Munchen. Í hollenska hópnum eru líka ungir leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref og má þar nefna leikmenn eins og vængmanninn Romeo Castelen frá Feyenoord, sem talið er að muni taka stöðu Robben í liðinu, sem og aukaspyrnusérfræðinginn Ugur Yidirim, sem kemur ekki til með að gefa David Beckham neitt eftir á því sviði. Síðast þegar liðin mættust á Englandi höfðu Hollendingarnir betur, 2-0, og heimamenn munu sjálfsagt vilja koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×