Skoðun

Vitlaus þjóð?

Íraksmálið - Jens Guðmundsson Þjóð Dóra margsaga er vitlaus. Óskaplega vitlaus. Hún á í basli með að svara einföldustu spurningum rétt. Þess í stað svarar hún stundum þvert á hug sinn. Sjálfur utanríkisráðherra Íslands, þokkalega læs og ágætlega skrifandi, Davíð Oddsson, hefur viðurkennt vanmátt sinn gagnvart eftirfarandi spurningu: "Á Ísland að vera á lista með þeim þjóðum sem styðja hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og Breta í Írak eða á Ísland ekki að vera á listanum?" Ráðherrann er í vandræðum með að svara þessari spurningu. Hann skilur ekki spurninguna. Skilur ekki upp né niður í þessari undarlegu spurningu. Hefur ekki hugmynd um hvað verið er að spyrja um. Hann er ekki einn um það. Íslenska þjóðin skilur spurninguna ekki heldur. Það hefur dómsmálaráðherrann, Brellu-Björn, vottað. Björn óttast að í spurningunni felist brella. Hann er reyndar ekki búinn að átta sig á hver brellan nákvæmlega er. Um hvaða lista var spurt? Björn hefur eftir ónefndum embættismanni Brúsks forseta að listi stríðsviljugra hafi gufað upp einhverntíma eftir 28. júní 2004. Enginn veit hvenær. Kannski fyrir viku. Kannski fyrir hálfu ári. Áður var Björn búinn að finna út að listinn var aldrei listi heldur fréttatilkynning. Það er því öllu heldur fréttatilkynning sem gufaði upp. Skv. nafnlausu heimild brellumeistarans hefur nafnaskrá fjölþjóðahers í Írak leyst fréttatilkynninguna af hólmi. Björn tekur fram að ENGUM þyki NEITT dularfullt við að heimildarmaðurinn pottþétti sé nafnlaus. Þetta er rétt hjá Birni. Og skiljanlegt að heimildarmaðurinn sé nafnlaus. Upplýsingar hans stangast á við heimasíðu Hvíta hússins. Þar er nefnilega listinn sem aldrei var listi heldur fréttatilkynning sem gufaði upp. Að vísu ekki alveg sami listi og upphaflega. Nafn Kosta Ríka vantar á listann. Er að furða þó brellumeistarinn sé tortrygginn? Ef rétt niðurstaða á að fást um viðhorf hinnar vitlausu íslensku þjóðar til Íraks þarf spurningin að vera eftirfarandi: "Vilt þú að Saddam Hussein verði aftur forseti Íraks og að engin uppbygging fari fram í Írak eftir að vel heppnuð innrás Bandaríkjanna, Bretlands og Íslands hefur skilið eftir sig hundruð þúsunda dauðra, særðra og örkumla Íraka, gert fjölda íraskra barna munaðarlausan; og að Saddam fái að draga gereyðingarvopn sín úr felum og ógna allri heimsbyggðinni til viðbótar því að brjóta mannréttindi heima fyrir, jafnvel pynta fanga og drepa fólk?" Þessari spurningu getur meira að segja utanríkisráðherrann svarað án þess að lenda í teljandi vandræðum. Ekki viljum við að okkar ástsæli utanríkisráðherra sé í vandræðum. Nóg eru vandræðin samt.



Skoðun

Sjá meira


×