Viðskipti innlent

Tekist á um Toyota

Uppsögn níu lykilstarfsmanna Toyotaumboðsins P. Samúelssonar verður að teljast þungt högg fyrir fyrirtækið. Fyrir helgi var tilkynnt að forstjóri fyrirtækisins, Emil Grímsson, myndi hætta hjá fyrirtækinu og Úlfar Steindórsson kæmi í hans stað. Jafnframt var tilkynnt að Emil myndi kaupa Arctic Trucks. Í kjölfar þess að Emil hætti sögðu níu stjórnendur fyrirtækisins upp störfum. Þar með er horfinn hópur sem leitt hefur fyrirtækið undanfarin ár í harðri samkeppni á bílamarkaði, þar sem P. Samúelsson hefur verið leiðandi á markaðnum. Starfsmennirnir keyptu á sínum tíma fimmtungs hlut í fyrirtækinu og höfðu áhuga á að kaupa það allt. Fjölskylda Páls Samúelssonar var ósamstíga og lykilstarfsmennirnir og Bogi Pálsson, sonur Páls, elduðu grátt silfur saman. Fjölskyldan fékk tilboð frá starfsmönnum um kaup á fyrirtækinu og leit svo út um tíma að af þeim viðskiptum gæti orðið. Útséð var um það þegar sættir tókust milli Boga og fjölskyldunnar. Þar með var ljóst að starfsmennirnir yrðu ekki kaupendur fyrirtækisins. Það kom því fæstum á óvart að afgangur hópsins fylgdi í kjölfar Emils og hætti hjá fyrirtækinu. Með uppsagnarákvörðun níumenninganna fylgdi yfirlýsing þar sem segir að djúpstæður ágreiningur innan fjölskyldu og meirihlutaeigenda P. Samúelssonar hafi nú leitt til þess að Emil hafi þurft að láta af störfum. Starfsmennirnir benda á að undir hans stjórn hafi fyrirtækið náð framúrskarandi árangri og skilað mesta hagnaði í sögu þess í fyrra. Emil vill ekki tjá sig um þann ágreining sem verið hefur í fyrirtækinu. "Ég vona að Toyota haldi áfram að ná þeim árangri sem það hefur náð hér á landi á undanförnum árum." Emil hefur fengið boð um að vinna hjá Toyota í Evrópu, en segist fyrst um sinn ætla að einbeita sér að rekstri Arctic Trucks sem skilið verður frá rekstri P. Samúelssonar. Emil getur ekki vegna ákvæða í samningi hafið störf hjá keppinauti í nánustu framtíð og flestir starfsmenn eru með slík ákvæði í samningnum til mislangs tíma þó. Óleysanlegur ágreiningur Úlfar Steindórsson, náinn samstarfsmaður Boga Pálssonar, sem tekur nú við fyrirtækinu mótmælir þeim fullyrðingum starfsmannanna að djúpstæður ágreiningur sé innan eigendahóps P. Samúelssonar. "Meirihlutaeigendur fyrirtækisins eru einhuga að baki þeim tímabæru breytingum sem nú eiga sér stað hjá P. Samúelssyni," segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Sjónarmið eigendanna eru að starfsmennirnir hafi fengið hlut í fyrirtækinu á silfurfati og ofmetnast. Þeir hafi talið sig eiga einhvern rétt til þess að kaupa fyrirtækið. Ákvörðun þeirra að hætta hjá fyrirtækinu hafi ekki komið á óvart og fyrirséð hafi verið að einfalda þurfi yfirstjórn félagsins. Þar á bæ er litið á að starfsmenn hafi fengið hlut í félaginu sem þeir hafi hagnast á og þeir megi því vel við una. Úlfar segir að því sé ekki að neita að svona mál hafi neikvæð áhrif á fyrirtækið. "Við höfum haldið okkar aðalbirgjum upplýstum um málið. Til skemmri tíma má búast við að þetta hafi einhver áhrif. Það er eitthvað sem menn verða að gera sér grein fyrir." Saga starfsmannanna er önnur. Þeir segja að tilboðið sem gert var í fyrirtækið sé hærra en svo að nokkur líkindi séu á því að aðrir muni bjóða betur. Fyrirtækið hafi verið nánast gjaldþrota 1994 og einstaklega samhentur hópur hafi snúið rekstrinum til betri vegar. Vandræðin hafi fyrst og fremst verið vegna ágreinings í fjölskyldunni. Bogi Pálsson hafi þótt frekur til fjárins í fyrirtækinu og verið upp á kant við aðra eigendur. Fjölskyldan hafi rekið hann frá fyrirtækinu. Hann hafi nú náð að vinna aðra eigendur á sitt band og ósætti á milli starfsmannanna og Boga sé þess eðlis að ekki verði áfram haldið á sömu braut. Starfsmennirnir hafi reynt allt sem í þeirra valdi stóð til að ná lendingu. Þá er fullyrt úr hópi starfsmanna að hópurinn, ásamt Emil, njóti mikillar velvildar meðal yfirmanna Toyota í Evrópu, enda árangur í sölu bifreiðategundarinnar hér á landi einstakur. Starfsmennirnir líta þannig á að langt sé frá því að þeir hafi fengið eignarhlutann á silfurfati. Þeir hafi tekið áhættu og skuldsett sig á móti eignarhlutanum og þegar hann var keyptur hafi ekki verið tryggt að svo vel myndi ganga sem raunin varð. Eignarhlutinn hafi verið í samræmi við loforð sem gefin voru þegar á móti blés í rekstri fyrirtækisins. :Viðkvæmur rekstur Þótt fulltrúar P.Samúelsson telji tjón sitt af brotthvarfi starfsmannanna ekki marka djúp spor í rekstri þess, þá er ljóst að alltaf er erfitt fyrir þjónustufyrirtæki að missa á einu bretti sambönd og þekkingu lykilstarfsmanna sinna. Bílaumboð eru ekki föst eign. Umboðin eru með samninga við bílaframleiðendur til tiltekins tíma og auk þess eru slíkir samningar uppsegjanlegir. Samningur P. Samúelssonar við Toyota er til 2008 og í honum eru uppsagnarákvæði. Hugsanlegt er að starfsmennirnir reyni að telja Toyota í Evrópu á að segja upp samningnum. Á móti því kemur að erlend fyrirtæki eru jafnan treg til þess að hlaupa frá gerðum samningum, nema rík ástæða sé til. Það mun því skipta miklu fyrir fyrirtækið að ekki sjáist merki þess í starfseminni að lykilfólk hafi yfirgefið fleyið. Hinn kosturinn er að þaulvanir stjórnendur úr bílasölu leiti að nýjum farvegi fyrir krafta sína og þekkingu og þá með stuðningi fjármálastofnunar og fjárfesta.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×