Erlent

Stofna nefnd um lausn fanga

Forystumenn í Palestínu og Ísrael samþykktu á laugardag að stofna sameiginlega nefnd sem fjalla á um lausn pólitískra fanga sem Ísrealar hafa í haldi. Þetta kemur í kjölfar þess að Ísraelar létu níu hundruð fanga lausa í síðustu viku. Nánustu samstarfsmen Ariels Sharon, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmouds Abbas, leiðtoga Palestínumanna, áttu fund á laugardag þar sem samkomulag náðist um stofnun nefndarinnar. Palestínumenn höfðu áður lýst gremju sinni yfir að ekki skyldu fleiri fangar hafa verið látnir lausir í síðustu viku en alls sitja um sjö þúsund Palestínumenn í ísrealskum fangelsum. Sá árangur sem nú virðist vera að nást í málum palestínskra fanga tengist því að á þriðjudag hefst fundur um friðarhorfur í Mið-Austurlöndum í hafnarbænum Sharm el-Sheik í Egyptalandi. Með því að samþykkja farveg fyrir umræður um lausn pólitískra fanga hefur því málefni verið ýtt út af fundarborðinu í næstu viku. Þetta vekur vonir um að meiri árangur náist í viðræðum um önnur mál, svo sem eins og hvernig staðið verður að afhendingu hernumdra svæða til Palestínumanna. Líklegt er talið að Ísraelsemenn láti af hendi stjórn í borginni Jeríkó um leið og fundinum í næstu viku lýkur. Í kjölfarið er búist við því að þeir láti af stjórn af bæjunum Tulkarem, Qalqiliya, Betlehem og Ramallah. Málefni pólitískra fanga hefur hingað til verið einn helsti ásteytingarsteinn í viðræðum Ísrealsmanna og Palestínumanna og hafa Palestínumenn ekki viljað hefja viðræður um önnur deiluefni áður en niðurstaða fengist í málefni fanganna. Þeir níu hundruð fangar sem látnir voru lausir fyrir helgi sátu allir inni fyrir annað en ofbeldisbrot en nefndin sem nú hefur verið stofnuð mun ekki útiloka að menn sem grunaðir eru um þátttöku í árásum verði látnir lausir. Meðal þeirra sem látnir hafa verið lausir er Qassam Barghouti, sonur Marwans Barghouti. Qassam var handtekinn árið 2003. Ísrealar eru hins vegar ófáanlegir til að ræða lausn Marwans þar sem hann afplánar fimmfaldan lífstíðardóm fyrir þátttöku í mannskæðum árásum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×