Erlent

Þúsundir minnast Marleys í Eþíópíu

Þúsundir aðdáenda reggíkóngsins Bobs Marleys komu saman á tónleikum í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, í gær til að minnast tónlistarmannsins sem hefði orðið sextugur í dag, en hann lést úr krabbameini árið 1981, 36 ára að aldri. Marley, sem var frá Jamaíku, leit á Eþíópíu sem sitt andlega föðurland eins og aðrir rastafarar. Þeir líta á Haile Selassie heitinn, fyrrverandi keisara Eþíópíu, sem andlegan leiðstoga sinn, hinn svarta Messías. Marley öðlaðist heimsfrægð fyrir lög eins og I Shot the Sheriff og No Woman No Cry. Meðal þeirra sem komu fram á tónleikunum í Eþíópíu í gær voru Rita Marley, ekkja Bobs, og Ziggy Marley, sonur hans, sem sjálfur er þekktur reggítónlistarmaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×